Icelandic(IS)English (United Kingdom)

Sameiginlegt námskeið Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands, Staðarleiðsögn á jarðvangi, hófst laugardaginn 26. febrúar sl. í Skógum undir Eyjafjöllum.  Mjög góð aðsókn er að námskeiðinu, 37 þátttakendur, en það er haldið með stuðningi Starfsmenntasjóðs og tengist einnig norrænu samstarfsverkefni sem Háskólafélagið á aðild að, Nordic Geo Guide School, í samvinnu við Magma Geopark á Rogalandi í Noregi, Háskólann í Stavanger og Silurian Islands Geopark á eyjunni Saaremaa í Eistlandi.  

Hannes Stefánsson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari hefur umsjón með námskeiðinu í staðarleiðsögninni en markmið þess er að auka hæfni heimamanna til að segja gestum og gangandi frá náttúru, menningu og mannlíf í jarðvanginum (Katla Geopark).  

Laugardaginn 26. mars kynnti Ragnhildur Sveinbjarnardóttir ferðamálafræðingur hugtakið jarðvang, uppruna þess og einkenni.  Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur greindi frá helstu atriðum í jarðfræði svæðisins en auk þess sýndi Þórður Tómasson þátttakendum fjölskrúðugan safnkost Skógasafnsins, en það er fjölsóttasta safn utan Reykjavíkursvæðisins og varpar einkar skýru ljósi á samband lands og lýðs á svæðinu.

Miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsta kvöldlota námskeiðsins af sex en fyrirkomulagið er með þeim hætti að kennarinn er í Glaðheimum á Selfoss þar sem um þriðjungur þátttakenda mætir, en hinir mæta annað hvort á Hvolsvöll, til Víkur eða á Kirkjubæjarklaustur.  Þessir fjórir staðir eru samtengdir um myndfundabúnað Háskólafélagsins þannig að allir þátttakendur sjá samtímis glærur á skjá og heyra í kennaranum, og getur hver þeirra spurt kennarann nánar út í efnið, hvort sem hann er staddur í Glaðheimum eða einhverjum þriggja fjarstaðanna.

Glærurnar og ýmislegt ítarefni verður jafn harðan gert aðgengilegt hér á heimasíðunni.